þriðjudagur, janúar 12, 2010

Fékk hann frænda minn, Jón Karl, til að þýða þessar grein eftir mig. Hun var upphaflega á Ensku en ég gat engan veginn þytt hana. Og hefur hún birst á eggin.is

Kapítalismi hefur ætíð vakið bæði undrun og hrylling í huga mér. Þetta gildir ekki síst þegar um heilbrigðiskerfið er að ræða. Ég kem frá ríki þar sem heilbrigðisþjónusta er að mestu í almenningseigu, en undanfarið hef ég heyrt æ fleiri raddir stuðningsmanna kapítalismans sem segja að einkavætt heilbrigðiskerfi sé betri kostur af þeim sökum að eigendurnir mundu reka það betur, enda vissu þeir betur hvaðan féð kæmi og hvert það færi.

Þegar ég flutti til Bretlands hóf ég að starfa á einkareknu hjúkrunarheimili. Ég er fyrst nú að jafna mig á þeirri reynslu. Ég get hreinlega ekki skilið hvernig fólk getur hugsað sér að græða fé á hinum öldruðu og líkamlega og andlega fötluðu. Mér var talið í trú um að það yrði farið betur með þau og að starfsfólkið fengi betur borgað. En báðar þær fullyrðingar hafa reynst rangar.

Starfsfólkið fær naumast lágmarkslaun. Fólk starfar vanalega ekki í heilbrigðisgeiranum af þeim sökum að þeir sækjast eftir háum tekjum, en ef þú borgar starfsfólki þínu smánarlega mun það endurspeglast í þjónustunni sem það veitir. Við erum ekki að ræða um stórar fjárhæðir, heldur einungis nóg til að hafa ofan í sig og á.

Eigendurnir reyna að spara fé á öllu sem að klóm kemur: Mat, þjálfun fyrir starfsfólk og, ótrúlegt en satt, kyndingu! Fé er eytt í nýtt veggfóður og teppi til að bæta ímyndina, en um leið þurfa menn að láta sér nægja sjúkralyftu sem var keypt notuð og gölluð (í hana vantar m.a. hjól).

Ummönnunin sjálf er hryllingur. Við verðum að hafa í huga að um er að ræða fólk sem gengur nú líklega í gegnum ógnvekjandi tímabilsskipti sem veldur miklu hugarangri. Í stað þess að þessi umskipti séu gerð eins þolanleg og mögulegt er situr fólkið í eigin hægðum, borðar mat sem betlarar myndu fúlsa við og eru oflyfjuð.

Ég er nú sannfærður um að heilbrigðiskerfið eigi ætíð að vera rekið af því samfélagi sem það finnur sig í.

Heilsugæsla er ekki bisniss. Enginn ætti svo mikið sem að íhuga það að græða á henni, enda myndi það fela það í sér að einhver annar þyrfti að þjást. Þjáningarnar sjálfa geta valdið keðjuverkun. Ef starfsmaður hringir sig inn veikan eykst um leið álag á aðra starfsmenn. Þetta veldur um leið aukinni streitu, sem veikir ónæmiskerfið og getur valdið enn meiri veikindum. Starfsfólkið endar sjálft á þessum stofnunum.

Heilsugæsla ætti ekki að miða að öðru fjárhagslegu markmiði en að enda á sléttu. Það sem embættismenn og ríkisstjórnir ættu að huga að er að ef þær tryggja að heilsugæslan sé góð og sjúklingar hljóti bata á sem bestan og skjótastan máta, geta þeir haldið áfram að starfa í samfélaginu, öllum til góða. Með heilbrigðara og hamingjusamari almenningi skapast meiri skatttekjur! Þetta er engin kjarneðlisfræði, en virðist samt vefjast fyrir endurskoðendunum í ríkisráðunu sem eiga náið og persónulegt samband við reiknivél sína og hafa tilhneigingu til að líta á fólk sem tölfræðileg fyrirbæri. En á einkavættri stofnun er þá ekki hugsað um gæði þjónustunnar heldur hversu lengi þeir geta gefið þjónustunna, og grætt því meiri pening. Gæði þjónustunar skipta ekki máli heldur magn þjónustunar.

Sá dagur sem fólk heldur að það þurfi að borga í heilsugæslunni il að fá góða þjónustu er sá dagur sem táknar fall mannúðarinnar. Að til sé gott heilbrigðiskerfi er það minnsta sem við getum gert til að endurgreiða þeim öldungum sem byggðu upp samfélag okkar. Þau ættu ekki einungis að eiga kost á góðri ummönnun; hún ætti að vera skylda.

Engin ummæli: